1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Um stjórnsýslu Rannís. Grein í Morgunblaðinu

Um stjórnsýslu Rannís. Grein í Morgunblaðinu

by | 1. Aug, 2019 | Fréttir, Opinber umræða, Umhverfi rannsókna

Hér á eftir er birtur texti greinar sem biritst í Morgunblaðinu í dag, 1. ágúst 2019 eftir Ingunni Ásdísardóttur og Hauk Arnþórsson.

Inngangur

Í vor og sumar höfum við orðið vitni að einstæðum vandræðagangi og jafnvel lögbrotum Rannís í meðferð máls sem varða Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna (SSSF). Sjóðurinn var stofnaður í þeim tilgangi að efla rannsóknir sjálfstæðra fræðimanna og ekki síst vegna frumkvæðis ReykjavíkurAkademíunnar, en fræðimenn hennar eru allir sjálfstætt starfandi.
Sjóðurinn er ekki lögbundinn þannig að um hann gilda reglur um tilfallandi framlög og styrki ráðuneytisins og stjórn sjóðsins er ekki stjórnvald og tekur ekki sjálfstæða ákvörðun í málum heldur er ráðgefandi fyrir ráðuneytið, er umsagnaraðili eins og það er kallað í Handbók Mennta- og menningarráðuneytisins um stjórnsýslu, rekstur og eftirlit með sjóðum og styrkveitingum. Um starfsemi sjóðsins gilda meðal annars stjórnsýslulög. Rannís er hins vegar umsýsluaðili í málinu, annast daglegan rekstur sjóðsins og er umsagnaraðila til aðstoðar.
Um SSSF gilda reglur settar af Menntamálaráðherra 10. janúar og 2. maí 2013. Umsagnaraðili á síðan að hafa skýrar viðmiðanir við tillögugerð sína.
Það segir sig sjálft að umsýsluaðili sjóðsins á að sjá til þess að úthlutanir mæti markmiðum sjóðsstofnunarinnar, annars er um tilhæfulausar peningagjafir frá ríkissjóði að ræða.

Málsatvik

Ný stjórn tók við málefnum sjóðsins á árinu 2019. Hún úthlutaði ekki í samræmi við fyrri hefðir. Þannig braut hún í úthlutun sinni: (i) 1. grein reglnanna um að styrkþegi skuli vera fræðimaður, (ii) 5. grein sem heimilar ekki að styrk sé veitt til höfunda alþýðlegra fræðirita, (iii) 6. grein um að styrkþegi skuli ekki vera í föstu launuðu starfi og (iv) 7. grein um framhaldsstyrki til stærri verkefna.
Úthlutunin sem braut í bága við 6. grein reglnanna – var á fræðasviði eins stjórnarmanna – og spurning hvort hann vék af fundi þegar hún var til umræðu. Sá umsækjandi er í föstu starfi við háskóla í Þýskalandi. Þá var umsóknin sem braut í bága við 1. og 5. grein frá listamanni sem hefur hvergi í verkum sínum gefið sig út fyrir að vera fræðimaður eða sent frá sér fræðilegar afurðir.
Um 7. greinina er haft eftir stjórnarmanni að framhaldsumsóknir hafi keppt við nýjar umsóknir á jafnréttisgrundvelli. Það er þó ekki eðlileg stjórnsýsla, ekki má láta umsóknir (sem í þessu tilfelli fengu styrk á árinu 2018) keppa við nýjar umsóknir tvisvar, heldur kallar reglan á að úthlutað sé í tveimur deildum: deild nýrra verkefna og framhaldsverkefna.
Í svörum sjóðsstjórnarinnar við kæru sagði hún efnislega að hún hefði „nokkuð svigrúm“ þótt reglurnar settu henni ákveðinn ramma. Þannig virðist stjórnin telja sig yfir reglur sjóðsins hafna, en telur að eigin viðmiðanir séu þeim æðri. Hið rétta í málinu er að vísa á frá umsóknum sem ekki uppfylla skilyrði, en ekki að taka þær til efnismeðferðar. Reglur sjóðsins eru í þessu efni yfirstæðar viðmiðunum sjóðsstjórnarinnar, sem hún á einvörðungu að beita gagnvart gildum umsóknum.
Í stjórninni sitja þrír prófessorar við hinn háa Háskóla Íslands og má velta því fyrir sér hvort afstaða þeirra gagnvart rannsóknum á vegum ReykjavíkurAkademíunnar skíni í gegn, en reynslumiklir og afkastamiklir doktorar við hana fengu ekki styrki. Aftur skal minnt á að sjóðurinn var þó stofnaður til þess – en umsækjendur eru í viðkvæmri aðstöðu til að sækja mál gagnvart stofnuninni.

Hlutur Rannís

Sem vörslumanni ríkissjóðs bar Rannís síðan að bregðast við í málinu. Tvennt liggur í augum uppi, annars vegar að Rannís bar strax í upphafi að beina því til ráðuneytisins að vísa ráðgjöf stjórnarinnar frá og eftir að úthlutunin hafði átt sér stað að beina því til ráðuneytisins að ógilda hana og endurúthluta. Hins vegar bar Rannís mögulega að senda þær umsóknir til lögreglu sem ekki uppfylla reglurnar, enda er það áskilið að umsækjendur kynni sér þær vel og virði og skrifa þeir undir drengskaparheit í því efni. Rökstyðja má að umsækjendur sem brutu á þessu hafi reynt að svíkja fé úr ríkissjóði. Það hefði þeim þó alls ekki átt að takast því rannsóknarregla stjórnsýslulaga kallar á að stjórnin rannsaki sannleiksgildi upplýsinga í umsóknum, sem hún gerði væntanlega ekki.
Áður en til úthlutunin var tilkynnt formlega fékk Rannís ábendingu um að ekki væri allt með felldu, en gerði ekkert með hana. Þá fékk Rannís stjórnsýslukæru sem hún beindi ekki til ráðuneytisins heldur til sjóðsstjórnarinnar sem er ekki stjórnvald og ekki til þess bær að fjalla um hana og braut þannig aftur á leiðbeiningarreglu sem segir að stjórnvald sem mál varðar ekki skuli koma máli til viðeigandi stjórnvalds. Rannís hefur raunar á engu stigi málsins leiðbeint umsækjendum um kæruleiðir.
Þá hafnaði Rannís að því er virðist sjálft þeirri kröfu að einn umsækjenda (aðili að málinu) fengi aðgang að umsóknum þeirra sem fengu úthlutun og minnismiðum stjórnarinnar við val á styrkþegum, þrátt fyrir skýr fyrirmæli stjórnsýslulaga þar um.
Þá skal nefnt að við uppgjör styrks frá SSSF á þessu ári hafnaði Rannís að taka við afrakstri af starfi styrkþega til að sannreyna að styrkurinn hefði verið notaður til þess sem bar og kallaði starfsmaður framvinduskýrslu formsatriði og sagði að hún yrði ekki lesin.

Lokaorð

Að öllu samanlögðu skýrist að Rannís hefur sennilega ekki þekkingu til að sinna starfi sínu sem vörsluaðili SSSF, sinnir ekki lögboðinni leiðbeiningaskyldu og beinir málum ekki í réttan farveg, hefur ekki eftirlit með ráðgefandi stjórn, grípur ekki inn í merkingarlausa ráðgjöf stjórnar og ógildir ekki að því er virðist ólögmæta úrskurði og krefst endurúthlutunar, kærir ekki misferli til lögreglu og virðist ekki fylgjast með að fé renni til þeirra verkefna sem þeim er ætlað.
Mjög aðkallandi er að rannsaka starfshætti stofnunarinnar, að minnsta kosti gagnvart SSSF og sjá til þess að markmiðum með veitingu almannafjár sé mætt: bæði að fé renni til réttra málefna og að verkefni séu raunverulega unnin. Að öðrum kosti er sjóðurinn ónýtur og úthlutanir óréttmætar gjafir á ríkisfé.

Haukur er stjórnsýslufræðingur og Ingunn þjóðfræðingur og formaður stjórnar ReykjavíkurAkademíunnar.