(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Viðburðir RA
  4.  » 
  5. H-21
  6.  » Upptökur af H-21 málþingi RA frá 17. sept 2016

Upptökur af H-21 málþingi RA frá 17. sept 2016

by | 25. okt, 2016 | H-21, Upptökur, Viðburðir RA

HUGMYNDIR 21. ALDARINNAR – Óþekkt

Upptökur af málþingi ReykjavíkurAkademíunnar sem haldið var 
laugardaginn 17. september sl.

 Movie icons 01 512 Smellið á nöfn fyrirlesara til að nálgast upptökur af fyrirlestrunum. Movie icons 01 512

  

 


Dr. Jón Ásgeir KalmanssonAð vita að maður veit ekki. Um gildi þess að viðurkenna eigin vanþekkingu.
Útdráttur: Samkvæmt gamalli hugmynd er upphaf og lögmál heimspekinnar fólgið í undrun. Undrun vaknar þegar maður áttar sig á að hann veit ekki það sem hann hélt sig vita og þráir að vita. Heimspekingurinn Sókrates telur að viska sín sé einna helst fólgin í því að vita betur en aðrir menn að hann veit ekki. Hefur slík afstaða einhverja merkingu og gildi nú á tímum sívaxandi vísindarannsókna og tækni? Hvert er gildi þess að beina athyglinni að og gangast við eigin vanþekkingu? Og hvað segir það um okkur og lífsafstöðu okkar ef við teljum að okkar eigin vanþekking hafi enga sérstaka þýðingu?
Ferilskrá: Jón Ásgeir Kalmansson er nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 2015. Doktorsritgerð hans nefnist Siðfræði athyglinnar: Rannsókn á þýðingu athygli og ímyndunarafls í siðferðilegu lífi. Meginumfjöllunarefni hans er siðfræði sem leggur áherslu á mikilvægi undrunar og samúðarfulls ímyndunarafls, og á þá afstöðu að veruleikinn sé í eðli sínu leyndardómur.

Dr. Soffía Auður Birgisdóttir: Óþekkt í bókmenntum og lífi: frá bókmenntagervum til kyngerva.
Útdráttur: Undanfarin ár hefur Soffía Auður Birgisdóttir rannsakað skrif Þórbergs Þórðarsonar og varði hún doktorsritgerð sína, Ég skapa – þess vegna er ég: Sjálfsmyndir, sköpun og fagurfræði í skrifum Þórbergs Þórðarsonar, í maí síðastliðnum. Í rannsókninni beinir Soffía Auður meðal annars athyglinni að hinum fljótandi mörkum bókmenntagreina sem skrif Þórbergs einkennast af og tilurð skáldævisögunnar. Einnig skoðar hún hin fljótandimörk kyngervis sem einnig má sjá í skrifum Þórbergs þar sem hann lýsir sjálfum sér sem ó’karlmannlegum’, hysterískum, hræddum og óléttum. Sú rannsókn sem Soffía Auður er að hefja núna snýst ennfremur um fljótandi mörk kyngerva sem kalla má aðalþemað í kynjafræðilegum rannsóknum nú á dögum. Viðfangsefnið er óþekkt (og óþekk) dóttir (eða sonur) Sveinbjörns Egilssonar, Guðrún, sem fædd var árið 1831 og lifði til ársins 1916. Af Guðrúnu fara fáar en mjög merkilegar sögur sem Soffía Auður ætlar að segja frá í fyrirlestri sínum.
Ferilskrá: Dr. Soffía Auður Birgisdóttir (f. 1959) bókmenntafræðingur er einn af stofnendum ReykjavíkurAkademíunnar. Hún hefur verið starfsmaður Háskóla Íslands í rúma tvo áratugi og kenndi um árabil í skor í íslensku, var einn af fyrstu kennurunum í skor í kynjafræði en starfar nú sem akademískur sérfræðingur hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Rannsóknir Soffíu Auðar eru aðallega á sviði íslenskra nútímabókmennta og kynjafræða.

Dr. Íris EllenbergerHin þekk(t)a samkynhneigð.
Útdráttur: Samkynhneigð og gagnkynhneigð eru gjarna talin ung fyrirbæri sem rekja megi til sérstakra aðstæðna sem sköpuðust á 19. öld, sér í lagi iðnvæðingar og kapítalisma. Á Íslandi var þessi þróun talsvert seinni á ferðinni en í nágrannalöndunum sem hafði vafalaust áhrif á hversu seint samkynhneigðir, sér í lagi samkynhneigðar konur, urðu til sem þjóðfélagshópur sem taldi sig hafa sameiginlega sjálfsmynd, einkenni og hagsmuni. Í erindinu verður skyggnst inn í veruleika samkynhneigðra, annars vegar um miðjan níunda áratug 20. aldar og hinsvegar á öðrum áratug 21. aldar og bornar upp ýmsar vangaveltur um stöðu þeirra gagnvart meirihlutasamfélaginu. Á fyrra tímabilinu var samkynhneigt fólk óþekkt í tvennum skilningi. Hinn almenni borgari hafði litla vitneskju um það og einnig gekk það í berhögg við ríkjandi gildi og norm. Því fólst ákveðin ógn í tilvist þess. Nú, á síðara tímabilinu, er fólk almennt meðvitað um samkynhneigð, skilur hana og telur samkynhneigt fólk til „okkar“ eða þjóðarinnar. Það er því þekkt, einnig í þeim skilningi að það stríðir ekki lengur gegn samfélagslegum reglum. Þvert á móti er samkynhneigð orðið hluti af viðteknum viðmiðum og leggur sitt af mörkum til viðhalds þeirra.
Ferilskrá: Íris Ellenberger útskrifaðist með doktorspróf frá Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands árið 2013 en doktorsverkefni
hennar fjallaði um félagslega stöðu danskra innflytjenda á Íslandi á árunum 1900-1970. Á síðustu árum hefur hún rannsakað sögu fólksflutninga og kynverundar í íslensku samhengi og fengið til þess styrki frá RANNÍS, Nýliðunarsjóði Háskóla Íslands, Jafnréttissjóði og Hagþenki. Íris hefur einnig látið til sín taka í hinsegin aktívisma og félagsstörfum, m.a. með Samtökunum 78 og Hinsegin dögum í Reykjavík. Hún starfar nú sem nýdoktor hjá Sagnfræðistofnum Háskóla Íslands.

Dr. Sumarliði Ísleifsson: Á mörkum mennsku og ómennsku. Hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig og grannana í vestri.
Útdráttur: Erindi Sumarliða fjallar um þær andstæður sem hafa birst í sjálfsmyndum Íslendinga á liðnum öldum og hvernig þær tengjast viðhorfum þeirra sem fjölluðu um landið utan frá. Hann mun einnig ræða um hvernig sjálfsmyndirnar mótuðust í tengslum við viðhorf Íslendinga sjálfra til næstu nágranna sinna, Grænlendinga, og hvernig hugtakið Skrælingi verður miðlægt í þeirri orðræðu. M.a. verður spurt um hver var merking þess hugtaks og hvernig var það notað í orðræðunni um eigið sjálf.
Ferilskrá: Sumarliði R. Ísleifsson er sagnfræðingur að mennt, lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands með hagfræði sem aukagrein. Hann stundaði framhaldsnám í Danmörku um þriggja ára skeið en lauk doktorsnámi árið 2014 þegar hann varði doktorsritgerð sína, Tvær eyjar á jaðrinum. Ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar.
Sumarliði hefur unnið að ritstöfum, heimildamyndagerð, rannsóknum, kennslu og sýningarhaldi um langt skeið, lengst af innan ReykjavíkurAkademíunnar (frá 1998-2012). Meðal verka hans má nefna Sögu Alþýðusambands Íslands (I-II, 2013); Iceland and Images of the North (2011); Stjórnarráð Íslands 1964-2004 (ritstjóri og höfundur að hluta, I-III, 2004) og Ísland. Framandi land (1996). Auk fleiri bóka liggur eftir hann fjöldi greina í innlendum og erlendum tímaritum og bókum. Nýlega var sýningin, Vinnandi fólk. Alþýðusamband Íslands 100 ára, í sýningarsal Þjóðminjasafnsins en Sumarliði er höfundur hennar.
Rannsóknir Sumarliða undanfarna áratugi hafa einkum varðað atvinnusögu og sögu stjórnsýslu og verkalýðshreyfingar á 20. öld annars vegar og ímyndir hins vegar með áherslu á viðhorf til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans.
Sumarliði hefur lengi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst á sviði hugmyndasögu og ímyndafræða. Stærsta verkefni hans á því sviði var rannsóknaverkefnið, “Iceland and Images of the North”, sem fékk öndvegisstyrk Rannís 2007-2011 en í því verkefni tóku þátt yfir 20 innlendir og erlendir fræðimenn.

 

 
Umræðustjóri var Unnur G. Óttarsdóttir

{loadmodule mod_facebook_page_widget,Deildu fréttinni}