(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Útgáfuhóf Erasmus+ vegna inngildingarbæklings

Útgáfuhóf Erasmus+ vegna inngildingarbæklings

by | 1. apr, 2023 | Fréttir

Tveir félagar í ReykjavíkurAkademíunni, Björg Árnadóttir og Embla Guðrún Ágústsdóttir, voru þann 23. mars ræðumenn og sérstakir gestir í útgáfuhófi Landskrifstofu Erasmus+ vegna nýrrar handbókar um inngildingu fatlaðs fólks í evrópsk æskulýðsverkefni. Björg Árnadóttir þýddi bókina en hún hefur fyrir hönd ReykjavíkurAkademíunnar tekið þátt í fjölda Evrópuverkefna um inngildingu í menntun og menningu og einnig stjórnað samstarfsverkefni á vegum Akademíunnar undir nafninu ÖLLUM TIL HEILLA samtal um samfélagslistir. Í ræðu sinni sagðist Björg hafa lært afar mikið af því að þýða bókina, bæði um aðgengismál og inngildandi hönnun lærdómsferla.

Embla Guðrún, baráttukona og talskona feminísku fötlunarhreyfingarinnar Tabú, hefur með góðum árangri skapað inngildandi námskeið með stuðning frá Erasmus+. Í ræðu sinni lýsti hún þeirri vinnu og hvernig hún hefur getað nýtt sér inngildingarstyrk Erasmus+ til þátttöku í verkefnum.

Handbókin heitir TÖKUM ÞÁTT Í INNGILDINGU. Leiðarvísir um inngildingu fatlaðs fólks í evrópsk æskulýðsverkefni. Inngilding er sérstakt áhersluatriði Erasmus+ áætlunarinnar og er eitt af markmiðunum að öllum séu tryggðir jafnir möguleikar á þátttöku. Á heimasíðu áætlunarinnar má kynna sér þann stuðning sem í boði er.

Útgáfuhófið í Hörpunni var haldið í samvinnu Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og Rökstóla samvinnumiðstöðvar.