(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Vettvangsrannsóknir og viðmið siðfræðinnar 10. febrúar

Vettvangsrannsóknir og viðmið siðfræðinnar 10. febrúar

by | 5. feb, 2009 | Fréttir

Dr. Vilhjálmur Árnason heldur fyrirlestur á vegum Mannfræðifélags Íslands þriðjudaginn 10. febrúar n.k. í fyrirlestraröðinni VETTVANGUR – NÁLGUN – SIÐFERÐI.
Fyrirlestur Vilhjálms nefnist Vettvangsrannsóknir og viðmið siðfræðinnar og hefst klukkan 20.00


Í þessu erindi ræðir Vilhjálmur ágreining innan hagnýtrar siðfræði um hvaða aðferðir séu við hæfi þegar verið er að meta siðvenjur á tilteknum starfsvettvangi eða í framandi menningu. Hann tekur einkum mið af umræðu innan heilbrigðis- og lífsiðfræði, en þar hafa verið ríkjandi nokkur megin siðferðileg viðmið eða siðalögmál sem talin eru verja grundvallarhagsmuni allra manna um sjálfræði, velferð og réttlæti. Þessi viðmið hafa hlotið umtalsverða gagnrýni, meðal annars frá félagsvísindamönnum, fyrir það að þau feli í sér vestrænt eða jafnvel amerískt verðmætamat sem varhugavert sé að alhæfa yfir á önnur menningarsvæði. Í staðinn beri að leggja áherslu á virðingu fyrir staðbundum siðvenjum, næmi fyrir aðstæðum sem og greiningu á félagslegum hlutverkum og þeim skyldum sem þau fela í sér. Vilhjálmur mun í fyrirlestrinum rökræða þá spennu sem skapast milli þessara viðhorfa og halda því fram að hún sé æskilegur hluti af siðfræðilegri vettvangsgreiningu. Það sé hvorki vænlegt til árangurs að beita siðalögmálum án tillits til aðstæðna og sjálfsskilnings þeirra sem í hlut eiga né að fallast gagnrýnislaust á allar siðvenjur.

Dr. Vilhjálmur Árnason lauk doktorsprófi í heimspeki frá Purdue háskóla í Indiana, BNA árið 1982. Hann er prófessor í siðfræði við Háskóla Íslands og formaður stjórnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn verður þriðjudaginn 10. febrúar í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, Reykjavík, 4. h. og hefst kl. 20:00. Fyrirlesturinn er opinn öllum og eru félagar hvattir til að fjölmenna. Háskólanemar, einkum í félagsvísindum, heilbrigðisvísindum og heimspeki eru sérstaklega boðnir velkomnir.