1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Viðhorfsgrein: Er íslenskan í hættu?

Viðhorfsgrein: Er íslenskan í hættu?

by | 29. Aug, 2023 | Fréttir

Höfundur greinarinnar, dr. Haukur Arnþórsson, er stjórnsýslufræðingur og starfar við ReykjavíkurAkademíuna.

Greinin birtist á Visi, 28. ágúst 2023. Efni hennar og innihald eru á ábyrgð greinarhöfundar og endurspegla ekki stefnu ReykjavíkurAkademíunnar.
__________________________________________________________________________________________________________________

 

Rökstyðja má að íslenskan standi tiltölulega sterkt – miðað við önnur tungumál. Hræðslan um íslenskuna er hins vegar stórvarasöm.

Margir lærðir og leikir virðast telja að íslenskan standi veikt og sé jafnvel á undanhaldi gagnvart enskunni. Bæði er talað um breytingar á málinu, að gera það minna karllægt – þær eru smávægilegar og eru ekki ræddar hér – og hins vegar að notkun þess hafi minnkað í almannarýminu. Þótt sumir, einkum fræðimennirnir, séu spakir, hafa aðrir minni spámenn farið á taugum. Hvað er annars hæft í þessu?

Þróunin utan landsteinanna

Heimurinn hefur verið að minnka vegna nýrrar málnotkunar. Ný heiti og hugtök í vísindum, fræðum og verktækni – og munum að ný þekking og þannig ný orð verða til með vaxandi hraða – eru almennt ekki þýdd. Þannig fer stækkandi sá hlutur hvers tungumáls sem er alþjóðlegur. Þetta auðveldar ungu fólki að vera í alþjóðlegu samstarfi og flytja milli starfssvæða – og auðveldar öllum lífið. Munum að þróun heita og hugtaka tekur líka til fjölmennra málsvæða.

Við Íslendingar, sennilega einir þjóða, tökum lítinn þátt í þessu heldur þýðum hugtök og heiti eins og við komumst yfir – og ómögulegt er að segja hvert kaupverð þess er. Málfarsleg einangrun hefur bakhliðar.

Vegna þýðinganna má rökstyðja að enda þótt tungumál heimsins nálgist hvert annað þessi árin þá hreyfist íslenskan minna í átt til alþjóðlegs orðaforða en nokkurt annað tungumál.

Við jaðar máltækninnar

Nýlega var tilkynnt að íslenska yrði fyrsta tungumálið sem AI-gervigreindarkerfið ChatGPT styddi. Þetta sýnir að staða íslenskunnar er sterk í alþjóðlegu þróunarumhverfi tungumálatækni. Fjöldi fólks á samfélagsmiðlum er farið að nota íslensku á gervigreindarþjóninum, þótt hún sé ekki studd að fullu enn þá og verkefnið sé á þróunarstigi. Þetta þýðir að séríslensk þekking kemst á netið.

Um þessi tímamót er lítið fjallað og ekki heldur hitt hver kostnaður þessa er – nú á tímum veiks höfundarréttar. Höfundarréttur gæti nánast orðið að engu. Því þróunin ber með sér að söfnunarforrit gervigreindarþjónanna munu taka allt laust og fast á íslensku – sem er á annað borð komið á netið – og gera það að sínu. Til að mynda sem bestan þekkingarbanka. Gildir jafnvel einu þótt efnið sé eitthvað varið.

Þýðingar

Þá gerir Google það ekki endasleppt við íslenskuna. Þýðingar þess til og frá ensku hafa lagast svo stórfelldlega að sæmilega ritfær Íslendingur á ensku velur frekar að nota „google translate“ til að þýða vandaðan íslenskan texta á ensku en að semja á ensku sjálfur. Jafnvel fræðilega þungur texti verður á allgóðu eða góðu ensku máli.

Að svo miklu leyti sem ég kynni mér fréttir á þýsku (ég er ekki nema hálflærður í þýsku) og læt Google þýða þýskuna fyrir mig á ensku í vafra sínum (þýsk-íslensk þýðing er styttra komin) – þá virðist mér sem þýðing Google frá þýsku til ensku vera síðri en þýðingin frá íslensku.

Heiti þjónustufyrirtækja

Þegar ég var barn fór ég suður í augnskoðun og keypti gleraugu í Optic. Ég leit við í Gevafoto til að kaupa „slides“-filmur og keypti gjöf í Liverpool til að fara með norður. Ég undraðist hvað Reykjavík var alþjóðleg í búðarheitum. En þegar norður var komið þurfti ég að láta laga gleraugun í Amaro. Alþjóðahyggjan í almannarýminu var sem sagt komin norður.

Nú er mikið látið af þessu – að heiti þjónustustofnana séu á ensku, en síðasta veitingahús sem ég fór á heitir Grillhúsið, næst síðast á Forréttabarinn, þar áður á Rok eða Kol.

Vissulega verður maður var við mörg ensk heiti hjá ferðaþjónustufyrirtækjum – en minn heimur er ekki mikið enskuskotnari en var.

Leiðbeiningar til ferðalanga

Ég fór til Sri Lanka um áramótin 2019. Þar var litlar leiðbeiningar að finna á ensku, sem spillti ferð okkar, við vorum upp á aðra komin.

Sjálfshjálpar (e. selfguided) ferðamennska er lykilorð dagsins. Ef Íslendingar ætla að hafa ferðamennsku sem megin tekjulind verða þeir að virða það. Þess vegna þarf leiðbeiningar á ensku. Skilti á flugvöllum og öðrum stöðum í beinni ferðaþjónustu eru því á ensku, auk íslensku þar sem Íslendingar fara um. Matseðlar eru líka gjarnan á ensku. Atvinnugreinin krefst ákveðinna innviða, sem eru þessi skilti og þessi texti.

Enda þótt atvinnugreinin gangi nær okkur að þessu leyti en t.d. orkufrekur iðnaður, má spyrja hvort hún ógni raunverulega íslenskunni?

Það að ferðamenn tala (fjölmörg) erlend mál sem við heyrum á förnum vegi breytir engu um hvaða mál við Íslendingar notum sem þjóð.

Íbúar með erlent ríkisfang

Fyrsta kynslóð innflytjenda mun aldrei tala góða íslensku, nema einn og einn maður. Munum við ekki eftir þýska, danska og ungverska fólkinu sem settist hér að um miðja síðustu öld og talaði aldrei annað en hrognamál? Þótt við höfum á þessari öld fengið nýja erlenda kynslóð – sem verður mállítil á íslensku – þá þýðir það varla að íslenskan standi veikt. Ekki var það raunin á síðustu öld. Börn nýbúanna ganga í íslenska skóla og læra lýtalausa íslensku.

Nú vill svo til að barnabörnin mín eiga börn nýbúa að bekkjarsystkinum og vinum. Þau tala íslensku sín í milli, það er enginn annar valkostur. Enska er auk þess oftast ekki fyrsta mál foreldranna.

Málaskólar

Smám saman hafa byggst upp málaskólar sem kenna íslensku, bæði á netinu og í raunheimum, fyrst hjá því opinbera, svo hefur markaðurinn tekið við. Ekkert er eðlilegra – og sumir myndu segja mikilvægara – en að sú atvinnugrein eflist eftir því sem fleira fólk með erlent ríkisfang býr í landinu. Þá er einnig mikilvægt að félagsmálakerfi opinberra aðila og styrktarkerfi verkalýðsfélaganna – og eru vinnustaðirnir þá ónefndir – styðji málanámið með því að greiða kostnað einstaklinganna við þessa endurmenntun – að einhverju eða öllu leyti.

Þessir málaskólar voru ekki heil atvinnugrein þegar ég var yngri – og eru til marks um þróunina. Frumkvæði íslenskra frumherja í málakennslu er ekki til marks um að íslenskan standi veikt, en uppbygging skólanna kemur eðlilega á eftir hingaðflutningi erlends fólks.

Meira um þýðingar heita og hugtaka

Eins og nefnt hefur verið höfum við um áratugaskeið þýtt öll fræðiheiti – og raunar öll ný alþjóðleg heiti og hugtök – á íslensku. Það gerir engin önnur þjóð eða það er gert að litlu leyti. Á tímum tölvutækninnar höfum við jafnvel þýtt hvaðeina – og sum hugtökin og búnaðurinn lifir ekki í áratug. Samt þýðum við.

Nú hefur þetta bakhlið, allir fræðimenn og háskólafólk, stækkandi hluti þjóðarinnar, þarf að kunna tvö hugtakasett og tvö heitasett: annað á íslensku og hitt eru hin alþjóðlegu heiti – af því að námsefnið er allt á ensku og fræðileg tjáning er að mestu leyti á ensku – en nám og vinna innanlands hins vegar að mestu leyti eða alveg á íslensku.

Ég ætla ekki að vera fjölorður um þennan Kínamúr núna en nefna að ein afleiðing þýðingarstarfsins er að erlent fólk á erfitt með að koma á íslenskan vinnumarkað. Það er fullmenntað og sækir því eðlilega ekki íslenskt háskólanám eða verknám – þannig að það gengur ekki inn í skólakerfið okkar sem kennir bæði hugtakasettin. Mállaust sem fræðimenn og iðnaðarmenn verður fólk með erlent ríkisfang því auðveldlega fórnarlömb ósanngjarnra stéttarfélaga Íslendinga, sem vilja ekki viðurkenna erlenda menntun, sem kannski víkur í einhverju frá íslenskri – og getur bent á að erlenda starfsfólkið getur alls ekki tjáð sig á fagmáli.

Vinnuveitendur fá þannig menntað fólk sem það getur greitt kaup ófaglærðra.

Enskukunnátta

Ljóst er að enskukunnátta þjóðarinnar hefur stóraukist á síðustu áratugum. Það er forsenda þess að vera gjaldgengur í síminnkandi heimi. Óhjákvæmilegt er að kunna að bjarga sér á ensku – og getur þetta orðið erfitt fyrir elstu kynslóðina, en enska var lítið kennd í skyldunámi áður fyrr og námsbækur í framhaldsskóla oft á dönsku.

En mikil kunnátta barnanna okkar í ensku (sem er kannski ofmetin þótt þau skilji talað barnaefni í sjónvarpi nógu vel til að fylgjast með) hefur ekkert með íslenskukunnáttu þeirra að gera.

Enskunotkun fullorðinna

Mestan hluta þessarar aldar hef ég verið vefstjóri tveggja fræðirita sem gefin eru út við Háskóla Ísland og gefa punkta í matskerfi háskólafólks. Greinar í tímaritunum eru annað hvort á íslensku eða ensku.

Skemmst er frá því að segja að greinar sem skrifaðar eru á íslensku fá mikinn lestur. Þá njóta þær jafnan töluverðrar athygli fréttamanna við útkomu. Hins vegar detta greinar sem skrifaðar eru á ensku dauðar niður, eru lítið lesnar og koma ekki til umræðu í þjóðfélaginu.

Nú er það svo að fræðimenn, sérstaklega bestu fræðimennirnir, leitast eftir að birta í erlendum tímaritum þar sem þeir fá mögulega einhverja alþjóðlega athygli. En umræða þeirra á ensku í þeim tímaritum og á ensku í íslenskum tímaritum fer fram hjá þjóðinni. Er af þessu mikill missir fyrir íslenskt þjóðfélag.

En þetta sýnir að við sem þjóð – lesum á íslensku, jafnvel fræðigreinar.

Baráttan um rannsóknarféð

Að lokum má minnast á það að íslenskumenn og máltæknimenn standa í baráttu við aðrar fræðigreinar um rannsóknarfé. Stundum finnast mér aðferðir þeirra ganga of langt.

Þá veltir maður því fyrir sér hvort málvísindamennirnir veki upp þjóðernishyggju, sem blundar hjá hægra fólki og enn frekar hjá því vinstra megin (t.d. vegna hersins og andstöðu við vestræna samvinnu í NATÓ) – þjóðernishyggju sem gæti ógnað alþjóðasamvinnu þjóðarinnar.

Hræðslan er afl

Í öllu þessu máli þarf að hafa í huga að hræðslan er mikið samfélagsafl sem Vesturlönd hafa verið að læra á eftir að henni var beitt í Kóvíd-málinu. Hún hefur annars ekki einkennt frjálsar þjóðir frá því kjarnorkuváin skók heiminn.

Óþekkt er til hvers hún mun leiða. Mögulegt er að hræðslan við veikingu íslenskunnar leiði – til andúðar á fólki af erlendu bergi brotnu, til dónaskapar við afgreiðslufólk sem ekki hefur fullt vald á málinu, til upphrópana á götu og jafnvel eineltis og árása. Öll slík einkenni eru kölluð rasismi og sá sem til þeirra hvetur er kallaður rasisti.

Stjórnmálamennirnir þora almennt ekki að svara svartnættis-postulunum, ekki heldur þeir sem leiða málaflokkinn og vita að íslenskan stendur sterkt.

Að lokum

Samantekt ofanritaðra orða er að íslenskan standi tiltölulega sterkt miðað við önnur málsvæði. Mikið er á sig lagt til að verja íslenskuna, flestar aðgerðir hafa sér til ágætis nokkuð – en stundum skaða þær þjóðfélagið í heild. Það er kaupverð varnaraðgerðanna.

Þýðingarþjónusta Google er afar góð og gæti skapað nýja möguleika til framtíðar. Ný form þýðinga gætu valdið bakslagi í samruna tungumála, enda ræður upplýsingatæknin við sífellt erfiðari verkefni. Þá er uppbygging málaskóla mjög góð viðbót við skólakerfið.

Hins vegar skapa þýðingar nýrra heita og hugtaka Kínamúr fyrir bæði íslenskt fólk og innflytjendur; að fræðigreinalestur er aðeins á íslensku þýðir að ný þekking á erfitt með að komast í almenna umræðu hér á landi; skjót tenging íslenskunnar við gervigreindarþróunina ógnar höfundarétti; erlend heiti og skilti til leiðbeiningar til ferðamönnum ergja hrætt fólk, einnig það að þeir tala erlend mál sín í milli; aukin enskukunnáttu ungmenna virðist einnig skelfa og það að fyrsta kynslóð innflytjenda mun aldrei tala góða íslensku hræðir marga, enda þótt ljóst sé að önnur kynslóðin muni gera það.

Verst af öllu væri ef hræðslan um örlög íslenskunnar leiddi af sér rasísk viðhorf og árásir á erlent fólk.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og starfar við ReykjavíkurAkademíuna. Greinin er byggð á punktum höfundar á félagsmiðlum 26. ágúst 2023.

_____________________________________________________________________________________

Nokkur umræða um efni greinarinnar hefur farið fram á samfélagsmiðlum.