1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Áform um sameiningu samkeppnissjóða – umsögn RA

Áform um sameiningu samkeppnissjóða – umsögn RA

by | 25. Sep, 2024 | Fréttir, Umhverfi rannsókna

Með breytingum á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsókna nr. 3/2003 áformar háskólaráðherra að sameina átta sjóði í þrjá meginsjóði og  ná þannig fram meiri skilvirkni, gagnsæi og sveigjanleika í starfsemi sjóðanna. Nánari upplýsingar eru að finna í Samráðsgátt stjórnvalda, mál S-161/2024.

ReykjavíkurAkademían gerir eftirfarandi athugsemdir við áformin:

Í lok árs 2022 kom út á vegum ReykjavíkurAkademíunnar skýrslan  Opinber fjármögnun rannsókna fræðafólks sem starfar sjálfstætt. Tillögur til úrbóta. Þar var bent á hversu lokað og óaðgengilegt núverandi styrkjakerfi er fræðafólki sem stunda rannsóknir og fræðamiðlun utan háskólanna. Annars vegar vegna þess að Rannsóknasjóður hefur lagt vaxandi áherslu á að fjármagna doktorsnám og rannsóknahópa sem lúta slíkum skilyrðum að erfitt er fyrir fræðafólk sem starfar sjálfstætt að uppfylla þau. Hins vegar vegna vanfjármögnunar Starfslaunasjóðs sjálfstætt starfandi fræðimanna sem þrátt fyrir mikla annmarka telst meginstoð rannsókna fræðasamfélagsins utan háskólanna.

Til þess að hefja umræðuna um nauðsynlega breytingu og aðgengi fræðafólks sem starfar sjálfstætt að opinberu fjármagni til rannsókna var í skýrslunni lagt til að Starfslaunasjóðurinn verði stækkaður í 550 miljónir, að heiti sjóðsins verði breytt í Rannsóknasjóð sjálfstætt starfandi fræðafólks og að sjóðnum verði sett lög sambærileg lögum um Rannsóknasjóð. Markmið með þessari tillögu var að jafna aðgengi fræðafólks sem starfar sjálfstætt og þess sem gegnir akademískum stöðum, að opinberum styrkjum til rannsókna. Einnig að efla grunnrannsóknir og auka fjölbreytni rannsókna, að tryggja nýliðun og sérfræðiþekkingu íslensks fræðasamfélags og að skila samfélaginu niðurstöðum rannsóknanna á íslensku. Hlutverk sjóðsins og mikilvægi fyrir íslenskt fræðasamfélag er því umtalsvert eins og sjá má á eftirfarandi lista:

  • Jafnar samkeppnisstöðu fræðafólks hvað varðar aðgang að opinberu fjármagni óháð því hvort það gegnir stöðu við háskóla eða starfi sjálfstætt að rannsóknum og fræðamiðlun.
  • betri nýting menntunar á sviði hug- og félagsvísinda.
  • eykur samkeppnishæfni einstaklinga á vinnumarkaði og auðveldar þeim að nýta menntun sína og hugvit.
  • styður ungt fræðafólk í upphafi akademísks ferils þess og tryggir nýliðun akademísks starfsfólks háskólanna.
  • gerir fræðafólki kleift að velja sér viðfangsefni byggt á áhuga þess og þekkingu
  • fangar upp þekkingu sem ekki fær hljómgrunn innan núverandi sjóðakerfis.
  • fjölgar rannsóknum á breiðara sviði og eykur þannig sveigjanleika og fjölbreytni háskóla- og rannsóknasamfélagsins.
  • skapar brú milli háskólanáms og atvinnulífs.
  • auðveldar nýdoktorum frá erlendum háskólum að fóta sig í íslensku rannsóknaumhverfi.
  • bætir aðgengi samfélagsins að nýrri þekkingu ritaðri á íslensku sem efla og auðga íslenskt samfélag.
  • styður þá sem lokið hafa háskólagráðu til þess að miðla rannsóknum sínum til samfélagsins.
  • bætir aðgengi að rannsóknum nýdoktora frá erlendum háskólum.
  • auðveldar frumkvöðlum að nálgast nýjar hugmyndir og hasla sér völl á atvinnumarkaði í krafti hugvits.
  • skilar samfélaginu þekkingu sem styður við uppbyggingu nýsköpunarhugsunar og fyrirtækja á sviði fræða.
  • styður við fræðafólk sem í lok starfsævinnar vill miðla þekkingu sinn til samfélagsins.
  • auðveldar fræðafólki sem starfar sjálfstætt að koma á samstarfi við erlenda háskóla og þar með aukna sókn í evrópska sjóði.
  • auðveldar menntuðu fólki að starfa óháð staðsetningu og styður þar með við æskilega byggðaþróun.
  • bætir nýtingu fjármagns með hlutfallslegrar lækkunar kostnaðar við utanumhald og veitingu styrkja.

Komi til þess að áform um lagasetningu nái fram að ganga og Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimann lagður niður þá er mikilvægt i samhliða verði tryggt að núverandi meginmarkmið með sameiningu sjóðanna verði víkkað út frá því sem nú er. Huga þarf að samfélagslegu mikilvægi rannsókna og þekkingarmiðlunar og tryggja að opinberir sjóðir styrki áhugadrifnar rannsóknir og þekkingarmiðlun, innan og utan háskólanna, sem beinist að íslensku samfélagi og almenningi og leggja þar með grunn að fjölbreyttri og frjórri samfélagsumræðu og öflugum stofnunum og fyrirtækjum á sviði mennta og menningar.

Því leggur ReykjavíkurAkademían til  að meginmarkmið með sameiningu sjóðanna verði: að á Íslandi verði byggt upp „alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi rannsókna og nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á gæði, samfélagsleg áhrif, alþjóðlegt samstarf og árangur, sem og skilvirkni og gagnsæi í opinberu stuðningskerfi.

Þá minnir ReykjavíkurAkademían að innan hug- og félagsvísinda, rétt eins og allra annarra fræðasviða á sér stað nýsköpun. Sérstaða nýsköpunar á sviði hug- og félagsvísinda er gjarnan sú að hún beinist að því að skora viðtekin viðhorf á hólm. Því er gjarnan talað um samfélagslega nýsköpun til aðgreiningar frá nýsköpun sem beinist að þróun nýrrar tæknilausna. Slíka nýsköpun þarf að hampa og tryggja að á því sviði sé einnig verið að styrkja „bestu hugmyndina alla leið að sjálfstæði“

 

Sameining samkeppnissjóða – athugsemdir RA