1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Í minningu Ágústs Þórs Árnasonar

Í minningu Ágústs Þórs Árnasonar

by | 27. Apr, 2019 | Fréttir, Gárur

Kveðja frá ReykjavíkurAkademíunni

Ágúst Þór Árnason

Segja má að ReykjavíkurAkademían eigi tilvist sína Ágústi Þór Árnasyni að þakka því upphafleg hugmynd um stofnun samfélags sjálfstætt starfandi fræðimanna í félags- og hugvísindum kom frá honum og hann var einn af stofnendum hennar. Framan af var hann formaður undirbúningsstjórnar og sat síðan í stjórninni um nokkurt skeið. Þegar litið er yfir farinn veg ReykjavíkurAkademíunnar s.l. 20 ár lýsir hugmyndauðgi og atorka Ágústs Þórs eins og skær stjarna fyrstu árin eða þar til hann flutti til Akureyrar til að taka við stöðu við háskólann þar. Á þessum árum var hann óþreytandi í að skipuleggja fræðilega viðburði, ráðstefnur og málþing og nafn ReykjavíkurAkademíunnar og tilvist varð fljótlega þekkt innan fræða- og umræðusamfélagsins. Eftir að hann flutti norður kom hann oft við hjá okkur í suðurferðum og alltaf lyfti hann umræðum upp yfir hversdagslegt amstur enda áhuginn alltaf logandi og hugurinn síkvikur.
Með þökk og virðingu sendir ReykjavíkurAkademían sambýliskonu hans, Margréti Elísabetu, og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

F.h. ReykjavíkurAkademíunnar
Ingunn Ásdísardóttir stjórnarformaður

Ágúst Þór Árnason fæddist 26. maí 1954. Hann lést 11. apríl 2019.
Kveðjan birtist í Morgunblaðinu 27. apríl 2019.