(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Í minningu Dr. Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur

Í minningu Dr. Þorgerðar H. Þorvaldsdóttur

by | 10. ágú, 2020 | Fréttir, Gárur

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir

Dr. Þorgerður Þorvaldsdóttir sagn- og kynjafræðingur og sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.

Það er Þorgerður okkar.

Maður segir stundum að eitthvað hafi alltaf verið til. Þannig er það með Þorgerði, hún hefur alltaf verið Akademón, því hún kom til liðs við ReykjavíkurAkademíuna á fyrstu árum hennar, rétt fyrir síðustu aldamót Á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru hafa Akademónar stundað stórar og umfangsmiklar rannsóknir, gefið út ótölulegan fjölda fræðirita og greina og unnið til ýmissa virtra verðlauna og styrkja fyrir rannsóknir sínar.

Þarna var Þorgerður enginn eftirbátur nema síður sé og það hefur verið styrkur ReykjavíkurAkademíunnar að hafa fólk eins og Þorgerði innan sinna vébanda.

Hvernig lýsir maður persónu?

Þorgerður var hugsjónakona, vinnusöm með afbrigðum og samviskusöm í ofanálag – þetta tvennt fer nefnilega ekki alltaf saman! En Þorgerður lét aldrei neitt frá sér fara öðruvísi en lúslesið og margyfirfarið; hún var forkur dugleg enda skilur hún eftir sig ævistarf sem margur áratugum eldri en henni auðnaðist að verða, mætti vera stoltur af. Á tímabilum fannst manni hún búa við skrifborðið sitt því hún var þar öllum stundum, hæglát, róleg og sívinnandi. En auðvitað fór hún líka heim til sinna uppáhaldsmanna, þeirra Ágústar og Ingimundar, og lengst af alltaf á reiðhjóli. Eitt sinn kom hún skælbrosandi út í vinnu og hafði þá unnið væna upphæð í happdrætti og ætlaði nú að fá sér vetrardekk undir hjólið. Og hún hjólaði innan úr Laugarnesi og vestur í JL hús í hvernig veðrum og færð sem var eftir það, rjóð í kinnum og dálítið Húnavatnssýsluleg því innan fræðikonunnar bjó líka ástríðufull sveitakona; Þorgerður elskaði sveitina sína, þjóðlegan íslenskan mat og sauðfé. Hún birti varla svo mynd á facebook að þar væri ekki að minnsta kosti ein kind. Á hverju vori fór hún norður í sauðburð og gúmmístígvél og oftar ef hún gat.

Í Þorgerði var engin tilgerð, en henni fannst gaman að punta sig þegar tilefni gafst. Þegar ReykjavíkurAkademían ákvað í fyrsta sinn að vera ekki eftirbátur annarra fínna stassjóna og halda árshátíð, settu einhverjir í brýnnar yfir hugmyndinni um spariföt; vildu bara mæta á molskinnsbuxunum. En ekki Þorgerður. Hún tók hugmyndinni umsvifalaust fagnandi og mætti sparibúin með sínum sparibúna manni og tjúttaði fram á nótt. Þetta uppátæki skemmtinefndarinnar birtist svo í myndaseríu af prúðbúnum Akademónum í menningarblaðinu Séð og Heyrt undir fyrirsögninni Hámenntaður glæsileiki. Yfir þessu skemmtum við okkur síðar bæði oft og vel. Og Þorgerður leyndi á sér eins og fram kom á annarri árshátíð þegar haldin var spurningakeppni um popp-, fótbolta- og hollívúddstjörnur en þar sigraði hún með yfirburðum. Við enn annað tilefni vann Þorgerður til verðlauna fyrir að vera í langflottustu skónum og tók pósur í stóra salnum í JL húsinu.

Það var alltaf gott að líta inn á skrifstofu til Þorgerðar, skiptast á nokkrum orðum og finna þetta öryggi og rósemd sem fylgdi persónu hennar. Þorgerður tranaði sér ekki fram og ég skal viðurkenna að það leið nokkuð langur tími þar til ég áttaði mig á því hver vigt og þungi fylgdi veru hennar í fræðimannahóp ReykjavíkurAkademíunnar. Hún hafði ígrundaðar skoðanir á fjölmörgum málefnum en var heldur ekki feimin við að viðurkenna það ef hún vissi ekki eitthvað. Þá var eins víst að hún gengi í að kynna sér viðkomandi málefni ef það vakti áhuga hennar.

Jafnrétti í víðum skilningi var fræðasvið Þorgerðar. Fyrir jafnrétti brann með henni heitur hugsjónaeldur; þar sameinaði hún áhugasvið og fræði og lagði með rannsóknum sínum og verkum afgerandi lóð á vogarskálar þeirrar endalausu baráttu.

Eftir að hún veiktist, höfum við því miður séð æ minna af Þorgerði við skrifborðið sitt en alltaf var hún komin ef hún mögulega hafði heilsu til. Brosmild, jákvæð og bjartsýn; hafnaði allri vorkunnsemi en kunni að taka samúð og stuðningi. Þegar svo var komið að hún hafði ekki lengur fótaferð var mér sagt að hún sæti í rúmi sínu á sjúkrahúsinu og ynni að lokafrágangi greina og verkefna.

Þannig var dr. Þorgerður, sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni, brennandi í andanum þótt mátturinn færi þverrandi.

Fræðasamfélag ReykjavíkurAkademíunnar vottar uppáhaldsmönnum Þorgerðar, þeim Ágústi og Ingimundi, og öðrum aðstandendum innilega samúð við ótímabært fráfall merkrar fræðikonu og trausts vinar.

Ingunn Ásdísardóttir, formaður ReykjavíkurAkademíunnar