1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Útsýni yfir flæðarmálið

Útsýni yfir flæðarmálið

by | 19. Mar, 2020 | Fréttir, Gárur

Mynd á forsíðu gömlu heimasíðunnar

Forsíðumyndin á gömlu heimasíðunni. Útsýni úr glugga JL-hússins yfir Gullströndina

Þá er komið að því! Eftir langa meðgöngu lítur ný heimasíða ReykjavíkurAkademíunnar dagsins ljós. Tilhlökkunin er töluverð enda var sú gamla hætt að þjóna því hlutverki sínu að halda utan um starfsemi Akademíunnar og lyfta fram afrekum Akademóna. Á slíkum tímamótum er við hæfi að horfa yfir farinn veg og þakka þá innsýn sem heimasíðan hefur í rúman áratug veitt í fjölbreytta og margslungna starfsemi Akademíunnar. Um leið kveðjum við útsýnið út um glugga Akademíunnar í JL-húsinu sem svo lengi hefur fangað blik gesta gömlu heimasíðunnar.

Staðsetning ReykjavíkurAkademíunnar við Gullströndina og útsýnið úr gluggum JL-hússins yfir sundin blá átti sinn þátt í að móta sjálfsmynd Akademíunnar. Hugmyndin um lífið kviknar þar sem land mætir hafi endurspeglast í yfirskrift bókarinnar Fræðimenn í flæðarmáli, sögu ReykjavíkurAkademíunnar 1997 -2007, ritaðri af Árna Daníel Júlíussyni.

Bókin kom út árið 2009 en heimasíðan sem nú er kvödd var tekin í gagnið ári áður. Fyrsta fréttin sem þar birtist er tilkynning. Fyrirsögnin er: Fyrirlestur Margaret Ezell 18. júní. Lokafréttin sem birtist í lok janúar 2020 fjallar um bréf sem stjórn ReykjavíkurAkademíunnar ritaði forsætisráðherra og öðrum ráðherrum í Vísinda- og tækniráði í tilefni af úthlutun úr Rannsóknasjóði fyrir árið 2020. Bréfið er birt undir fyrirsögninni Aukið fjármagn til grunnrannsókna og hlutfall styrkja til hugvísinda. Þótt það sé töluverður munur á þessum tveimur fréttum sem varða upphaf og lok heimasíðunnar gömlu þá fanga þær saman það tvíþætta hlutverk ReykjavíkurAkademíunnar að vera vettvangur opinnar fræðilegar umræðu og að gæta hagsmuna sjálfstætt starfandi fræðimanna.

Gamlar síður lifa

Við gerð nýju heimasíðunnar var allt kapp lagt á að flytja þangað efni þeirrar gömlu. Flutningurinn gekk þó hvorki hnökralaust fyrir sig né heldur hefur tekist að flytja með það samhengi sem gamla síðan bjó yfir. Það er ljúft að geta kennt tæknimálum um en ekki síður nýjum tímum með nýjum viðhorfum og nýjum þörfum.

Þess vegna er gott til þess að vita að á vefnum vefsafn.is  eru varðveitt á þriðja hundrað afrit af gömlu síðunni, það síðasta tekið 19. október 2019. Reyndar er á vefsafninu hægt að finna það sem líklega er elsta heimasíða ReykjavíkurAkademíunnar í afriti frá því í október 2000. Í Vefsafninu kennir ýmissa grasa og þangað ber að leita ef markmiðið er að skoða í sínu upphalfega samhengi efni gömlu heimasíðanna sem spannar tvo áratugi. Gott ef ekki bæði sjávarilmur og ölduniður berist þeim sem opnar þá gullnámu í leit að ríkri sögu ReykjavíkurAkademíunnar og hug- og félagsvísinda.

Góða skemmtun!

Tenglar á elstu útgáfu heimasíðu Akadmíunnar og þá yngstu. Einnig elstu útgáfu heimasíðunnar sem nú hefur verið aflögð.

Heimasíða ReykjavíkurAkademíunnar 2000-2008, afrit 9. desember 2000
Heimasíða ReykjavíkurAkademíunnar 2008-2020,  afrit 20. apríl 2009
Heimasíða ReykjavíkurAkademíunnar 2008-2020, afrit 19. október 2019

/aþþ