1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Hoffmannsgallerí 2005-2014

Hoffmannsgallerí 2005-2014

by | 1. Jun, 2016 | Fréttir, Gárur

Hoffmannsgallerí 2005 – 2014


Hoffmannsgallerí var stofnað árið 2005. Það tekur nafn sitt af Pétri Hoffmann, kynlegum kvisti sem um miðja 20. öld bjó í kofa við selsvör, nærri þeim stað þar sem JL-húsið er nú. Þá voru öskuhaugar borgarinnar á þeim slóðum og Pétur fangaði ýmis verðmæti þar sem aðrir sáu aðeins skarn. Galleríið var sameiginlegt verkefni Akademíunnar og Myndlistarskólans í Reykjavík. Sýningahaldið var undir stjórn Kristins G. Harðarsonar og Sólveigar Aðalsteinsdóttur. Þau Kristinn höfðu að markmiði að sýningar séu almennt af tvennum toga. Annars vegar sé kannað hvernig listamenn vinni með ákveðin efni eða form myndlistar, og hins vegar samsýningar listamanna undir ákveðnu þema, ekki síst þema sem verið er að fjalla um í starfsemi RA eða Myndlistarskólans á sama tíma. Á bak við þessar hugmyndir var sú hugsjón að leitast við að tengja saman listaheiminn og fræðaheiminn, sem forstöðumenn gallerísins töldu vera sitt hvorum megin við gjá, þótt ákveðinn grundvöllur fyrir samstarfi hafi myndast á síðari árum.

2005
Á árinu 2005 voru haldnar fimm sýningar. Þar af voru tvær samsýningar margra listamanna um ákveðin þemu, fyrst um ljósmyndir og síðan um málverk. Þá kom sýning með Hlyn Hallssyni, sem nefndist Decimal Time Project og 3X1X praha. Sýningin fólst í tveimur innsetningum, annars vegar verki um tíma. Verkið sýndi þann möguleika að breyta tímareikningi heimsins yfir í tugakerfi, og tíminn talinn í dögum, þúsundum daga og brotum úr degi allt frá upphafi tugakerfisins í frönsku byltingunni 1795. Hin innsetningin var ljósmyndir og kvikmyndir unnar í hversdagsumhverfi borgarinnar Prag í Tékklandi. Þessu næst kom sýningin Söfn og safnarar, sem haldin var í tengslum við málþingið Stefnumót við safnara II. Sýningarsjórar voru þeir Kristinn og Ólafur Engilsbertsson. Málþingið var samstarfsverkefni ReykjavíkurAkademíunnar og Gerðubergs og var haldið í september 2005. Síðasta sýning Hoffmannsgallerís árið 2005 var sýning nemenda Myndlistaskólans í Reykjavík.
2006
Fyrsta sýning ársins 2006 var í tengslum við vetrarhátíð og ráðstefnuna Ímyndir norðursins í febrúar. Tólf listamenn sýndu stutt vídeóverk, sett saman á disk sem sýnd voru þrjú kvöld ráðstefnunnar. Sömu listamenn sýndu einnig veggverk út frá sama þema. Þessu næst kom sýning þar sem skoðuð var tölvuprentun og tölvuvinnsla mynda sem listform, og sýndu þar 11 listamenn. Þessu næst kom sýning undir stjórn Einars Fals Ingólfssonar, Vegvísar, þar sem níu listamenn sýndu verk tengd ferðum og upplifunum af ferðum. Þetta var síðasta sýningin af fjórum árið 2006.
2007
Yrkingar myndlistarmanna voru þema fyrstu sýningarinnar 2007, Davíð Stefánsson vann með Kristni sýningu þar sem sýnd voru ljóð, og kallaðist sýningin „Að mynda orð“. Þemað var að sýna verk þar sem fókusinn væri á tengsl texta og hins sjónræna (eða myndræna) þáttar hans, þ.e. verk sem eru samtímis mynd og texti. Verkin á sýningunni voru eftir bæði myndlistamenn og ljóðskáld.Alls voru fjórar sýningar árið 2007, og önnur sýningin var á verkum fjögurra kynslóða myndlistarkennara Myndlistarskólans í Reykjavík. Að henni lokinni tók við sýning Diddu Hjartardóttur á framhliðum búða í götunni Green Lane í London, þar sem aðallega eru búsettir Tyrkir. Þar má sjá tyrknesk veitingahús, bakarí, ferðaskrifstofur o.fl. Sýningin var persónuleg tjáning listamannsins á flutningi heim til Íslands eftir 20 ára dvöl í London.
Síðasta sýning ársins var á teikningum ljóðskáldsins Jónasar Svafár. Sýningin kallast ef til vill á við sýninguna „Að mynda orð“, að því leiti að hér voru sýndar teikningar ljóðskálds, en „Að mynda orð“ fólst í að sýna ljóð myndlistarmanna. Þann 25. október 2007 var haldin dagskrá til heiðurs Jónasi í tengslum við sýninguna. Sýningarstjóri var Ingólfur Arnarson.
2008
Árið 2008 var fyrst haldin sýning á teikningum. Sýningin var samsýning sem líkt og sýningar á ljósmyndum, málverkum og tölvuprenti áður fjallaði um eitt ákveðið listform. Sýningarstjóri auk Kristins var Sólveig Aðalsteinsdóttir. Um haustið var opnuð metnaðarfull sýning, List og fræði, þar sem sýnd voru sex verk sem orðið höfðu til í samstarfi sex fræðimanna í ReykjavíkurAkademíunni annars vegar og sex myndlistarmanna. Um var að ræða markvissustu tilraun til slíks samstarfs fram að því, og var að flestra mati afar vel heppnuð. Sýningarstjórar voru Kristinn, Sólveig og Viðar Hreinsson.

Myndlist í RA á fyrri árum

Myndlist varð snemma þáttur í starfsemi RA. Nálægðin við Myndlistarskólann í Reykjavík í JL-húsinu átti mikinn þátt í því. Snemma var farið að nýta ganga og húsnæði RA til sýninga, og svo er enn.

Fyrsta sýningin sem heimildir eru um var sýning í tengslum við málþingið Kynstrin öll. Meðal þeirra sem þar sýndu var hópur sem þá hafði aðstöðu í ReykjavíkurAkademíunni, Gjörningahópurinn, hópur fjögurra listakvenna. Afar minnisstæð sýning Birgirs Andréssonar myndlistarmanns var haldin haustið 1999, en sú sýning bar yfirskriftina Útilegumenn. Birgir hafði safnað saman ljósmyndum af andlitum fjölda sérvitringa, útigangsmanna og utangarðsmanna frá fyrri árum og stækkað upp í staðlaða stærð. Myndirnar voru hengdar upp eftir endilöngum göngum og fyrirlestrasal á 4. hæð RA. Hlé virðist hafa orðið á listastarfseminni á árinu 2000, sem þó er ekki víst, en heimildir skortir um listsýningar á því tímabili.

Um skeið, annaðhvort 1999 eða 2000, hékk uppi sýning á fjölmiðlaumfjöllun um ReykjavíkurAkademíuna, þar sem menn gátu daglega lesið það sem þeir höfðu sjálfir sagt um Akademíuna og skoðað myndir af sjálfum sér. Það var sjálfsagt gagnleg sjálfsskoðun (sjálfsskoðunarþemað er enn til umfjöllunar í ljósmyndum af meðlimum Akademíunnar sem hanga uppi í salnum á 4. hæðinni þegar þetta er skrifað. Myndirnar eru teknar af Birni Sigurjónssyni). Í gangi var meiriháttar verkefni í Akademíunni sjálfri, tekin var mynd á hverjum degi út um glugga á fjórðu hæðinni í heilt ár, alltaf á sama tíma. Sumarliði Ísleifsson og fleiri stóðu að þessu og var árangurinn sýndur í fyllingu tímans.
Í október 2001 hófst sýningahald á ný, og varð nú talsvert öflugt um skeið. Listamenn eins og Bjarni Þórarinsson og Þóroddur Bjarnason sýndu verk sín, og haldin var sýning á málverkum naívistans Hjálmars Stefánssonar frá Smyrlabergi. 35 ungir myndlistamenn sýndu verk sín haustið 2002 undir yfirskriftinni „Óður til líkamans“. Ingólfur Júlíusson sýndi ljósmyndir sínar frá Grænlandi á sýningu í janúar 2003. Myndlistarskólinn í Reykjavík sýndi verk nemenda sinna í febrúar. Haustið 2003 var síðan haldin sýning á ljósmyndum Öldu Sverrisdóttur frá Ástralíu.

Galleríið hætti starfsemi þegar Akademían flutti starfsemi sína í Þórunnartún í nóvember 2014. Unnið er að því að taka saman yfirlit yfir sýningar á vegum Hoffmannsgallerís og eru allar upplýsingar og ábendingar vel þegnar á netfangið ra [hja] akademia.is.

Hér er tengill á síðustu upplýsingar á heimasíðu ReykjavíkurAkademíunnar frá því í júlí 2014.