(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Í minningu Geirs Svanssonar

Í minningu Geirs Svanssonar

by | 1. apr, 2022 | Fréttir, Gárur

Fallinn er frá, langt fyrir aldur fram, einn af máttarstólpum ReykjavíkurAkademíunnar á upphafsárum hennar, Geir Svansson bókmenntafræðingur eftir langt og strangt stríð við skelfilegan sjúkdóm.

Á þessum fyrstu árum vissi ReykjavikurAkademían kannski ekki alveg enn hvað hún var eða vildi vera … jú, nokkrir sjálfstætt starfandi fræðimenn með sameiginlega vinnuaðstöðu – en hvað var það, hvað fól það í sér, hvert var hlutverk og staða sjálfstætt starfandi fræðimanna, gat ReykjavíkurAkademían orðið einhvers konar akademískur suðupottur? Í stefnumótun og allri umræðu um þessi mál átti Geir Svansson stóran hlut, ekki aðeins með orðum og orðræðu heldur einnig með verkum sínum og gjörðum.

Hægur og rólegur með sitt hlýja bros kom þessi myndarlegi maður eftir ganginum á fjórðu hæðinni í JL-húsinu þar sem ReykjavíkurAkademían hafði þá aðsetur; hann virtist jafnvel svolítið hlédrægur og lét lítið yfir sér, en skyndilega birtust tímamótandi greinar í virtustu bókmenntatímaritum landsins, margra binda ritröð með greinasöfnum eftir merkustu hugsuði samtímans leit dagsins ljós og ungir bókmenntafræðinemar birtust hver af öðrum geislandi af ákefð og áhuga eftir kennslu Geirs í Háskóla Íslands um menningar- og hugmyndafræði í bókmenntum og samfélagi.

Fljúgandi gáfur Geirs áttu ekki lítinn þátt í því að ReykjavíkurAkademían náði fótfestu og varð það sem hún er, öflugt samfélag sjálfstætt starfandi fræðimanna sem hafa að markmiði að kryfja og skilgreina fortíð og samtíð, miðla og fræða um nýjar stefnur og strauma í mannlegu samfélagi og menningu þess og takast á við umrót og kreddur með skarpleik og djörfung að vopni.

Síðustu árin sem Geir var í ReykjavíkurAkademíunni fór að koma í ljós að hann gekk ekki heill til skógar en þrátt fyrir þverrandi mátt, bæði líkamlega og andlega, hélt hann sínu hlýlega brosi og ljúfa viðmóti.

ReykjavíkurAkademían vottar aðstandendum Geirs Svanssonar sína dýpstu samúð við fráfall hans.

f.h. ReykjavíkurAkademíunnar
Ingunn Ásdísardóttir formaður.


Ljósmyndin af Geir Svanssyni með nokkur Atvikahefti birtist með viðtali Flóka Guðmundssonar sem tekið var í ReykjavíkurAkademíuni við Hringbraut og birtist 8. ágúst 2006 í Morgunblaðinu. Ljósmyndari: Jim Smart.

Geir Svansson