1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Ingólfur Júlíusson ljósmyndari

Ingólfur Júlíusson ljósmyndari

by | 4. May, 2013 | Fréttir, Gárur

Það er stórt skarð fyrir skildi hér í ReykjavíkurAkademíunni nú þegar Ingólfur Júlíusson ljósmyndari er horfinn úr okkar röðum svo allt of, allt of snemma.

Sennilega hafa sum okkar ekki vitað alveg hvaðan á sig stóð veðrið þegar hann kom fyrst, með allt þetta hár og allt þetta skegg, allar þessar græjur og tól og tæki og dálítið hávaðasaman hlátur. Það leið þó ekki langur tími þar til Ingólfur var orðinn órjúfanlegur hluti af akademíusamfélaginu, bæði hafði hann sterk fjölskyldutengsl hér inn, en ekki var síður um vert að allir hér innan dyra sem kynntust honum fóru strax að halda óskaplega upp á hann. Þegar hann kom töltandi inn ganginn, stundum einn, stundum með fallegu dætrunum sínum, stundum með tíkina Betu á hælunum, þá kviknuðu bros í öllum skrifstofum, alls staðar heyrðust glaðlegar kveðjur, og svo glumdu gjarnan dillandi hlátrasköll Ingólfs í kjölfarið.

Ingólfur var alltaf glaður, smitaði alla af þessari gleði og ákafanum sem hann lagði í allt sem hann gerði, alltaf jákvæður, ótrúlega örlátur á hrós og viðurkenningu en jafnframt mikill grínari og stríðnispúki af ástríðu.

En Ingólfur var ekki bara gleðigjafi, hann var gríðarlega flinkur fagmaður, hvort heldur var sem ljósmyndari eða umbrotsmaður. Alltaf þegar eitthvað fréttnæmt umfram daglegt þras var um að vera, var Ingólfur eins og þeytispjald út um víðan völl, hvort sem var á nótt eða degi og fréttamyndir hans mátti gjarnan þekkja úr í blöðum því þær geisluðu beinlínis af ákefð þess sem tók þær. Fyrir fáeinum árum hélt hann ljósmyndasýningu hér innan vébanda ReykjavíkurAkademíunnar á myndum sem hann tók af gosinu í Eyjafjallajökli. Þessar myndir voru stórbrotnar, fagrar og þrungnar lífi; þær færðu náttúruna og hamfarir hennar alla leið inn í sál manns.

Þegar fréttir bárust af þeim veikindum sem dundu á honum og nú hafa dregið hann til dauða á örskömmum tíma, var sem dimmdi yfir í húsakynnum okkar hér. En hvað gerðist þá? Jú, Ingólfur kom öðru hvoru í húsvitjun, búinn að missa hár og skegg, orðinn grannur og með slöngur dinglandi út úr hálsinum, – en hláturinn var samur við sig, kímnin, uppátækin, lífsgleðin … Hann sem var veikur, huggaði og gladdi okkur hin með bjartsýni sinni, vongleði og uppörvun.

Við hér í ReykjavíkurAkademíunni sendum eiginkonu hans og dætrum, systkinum og foreldrum og öðrum nákomnum okkar innilegustu samúðarkveðjur við fráfall hans og vonum að minningin um góðan dreng lini söknuð og sorg.

Fyrir hönd vina og samstarfsfólks í ReykjavíkurAkademíunni

Davíð Ólafsson

Sólveig Ólafsdóttir

Ingunn Ásdísardóttir