(354) 562 8565 ra@akademia.is
  1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » Upprisa Kistunnar

Upprisa Kistunnar

by | 22. okt, 2009 | Fréttir, Gárur

Menningar- og fræðavefritið Kistan gengur nú í endurnýjun lífdaga og í dag er fyrsti starfsdagur nýrrar Kistu. Við ríðum á vaðið með viðtali við leik- og söngkonuna Charlotte Gainsbourg, aðalleikkonu Antichrist, auk þess sem Þröstur Helgason tekur við kefli Kistulúðans þessa vikuna. Þessu til viðbótar verða ritdómar og ávarp nýs ritstjóra þennan fyrsta dag nývaknaðrar Kistu, en það verður þó aðeins byrjunin – það bíða fleiri greinar birtingar og enn fleiri eru í smíðum, það hefur sjaldan verið meiri þörf á aukinni menningar- og þjóðfélagsumræðu, vonandi bætum við þar einhverju við.
Áherslan verður sem fyrr á menningu og fræði, enda Kistan nú undir armi ReykjavíkurAkademíunnar, þar sem fræðimenn, listamenn og fleira gott fólk vinnur saman undir einu þaki að hinum fjölbreyttustu viðfangsefnum. Vefritið mun sem fyrr sækja styrk í það bakland en einnig sækja sér andagift út í borg, út á land og útfyrir landssteinana, enda búa sjálfsagt fleiri pennaliprir Íslendingar á erlendri grundu en nokkru sinni áður, það er fjársjóður sem við verðum að passa okkur á að glata ekki að fullu, og eins höfum við gott af því að fá fleiri og fjölbreyttari sjónarmið á veröldina, frá stöðum þar sem lífsbaráttan snýst ekki bara um Icesave.

En framtíð Kistunnar er ekki hoggin í stein og við tökum fagnandi öllum sem vilja vera með, hvort sem það er með því að lesa síðuna, skrifa á hana, taka myndir, koma með hugmyndir eða eitthvað annað.

Þannig að veriði velkomin í heimsókn hvenær sem er, slóðin er kistan.is og pósturinn er kistan@akademia.is

með góðri kveðju,

Ásgeir H Ingólfsson
ritstjóri

asgeirhi@gmail.com
s.: 690-1827