1. Forsíða
  2.  » 
  3. Viðburðir RA
  4.  » 
  5. Borgarmálþing
  6.  » ÖLLUM TIL HEILLA – viðburður 2/5 (upptökur)

ÖLLUM TIL HEILLA – viðburður 2/5 (upptökur)

by | 16. Mar, 2022 | Borgarmálþing, Fréttir, Upptökur, Viðburðir RA

Annar viðburður, ÖLLUM TIL HEILLA samtal um samfélagslistir sem nefnist Listsköpun og samvinna: Leiðir að virkni og velferð fór fram í hádeginu í dag, 16. mars í beinu streymi. Þar sögðu fimm kennarar við listkennslubraut Listaháskóla Íslands frá samvinnu- og þróunarverkefnum sínum á sviði samfélags- og þátttökulista.

Kristín Valsdóttir, deildarforseti, kynnti námslínu  um listir og inngildingu (e. inclusion) sem er í mótun og Unnur Óttarsdóttir listmeðferðarfræðingur, Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Magnea Tómasdóttir söngkona sögðu frá aðferðum sínum í inngildandi vinnu. Þá talaði tónlistarkonan Sigrún Sævarsdóttir Griffiths, en hún er án efa einn þekktasti Íslendingurinn á sviði þáttökulista. Sigrún kennir við Guildhall School of Music and Drama en starfrækir einnig fyrirtækið Metamorphonics þar sem aðferðir skapandi tónlistarsamvinnu eru notaðar til að valdefla jafnt faglært sem ófaglært tónlistarfólk víða um heim.

Upptak frá viðburðinum eru aðgengilegar á akademia.is/ollum,bæði með enskum texta og með táknmálstúlkun. Sjá einnig hlekki hér fyrir neðan:

Upptaka með enskum texta                      Upptaka með táknmálstúlkun

Samstarfsverkefnið ÖLLUM TIL HEILLA er röð viðburða sem ætlað er að vekja athygli á áhrifamætti samfélags- og þátttökulista við að valdefla og inngilda jaðarsetta í samfélagið og auka traust og skilning meðal ólíkra samfélagshópa. Meginmarkmið ÖLLUM TIL HEILLA er að fá sem flesta til samtals um gildi samfélagslista. Nánari upplýsingar eru á síðu viðburðaraðarinnar www.akademia.is/ollum

Samstarfsaðilar ReykjavíkurAkademíunnar eru Öryrkjabandalag Íslands, Listaháskóli Íslands, Listahátíð í Reykjavík, List án landamæra, Reykjavíkurborg og Borgarleikhúsið.