1. Forsíða
  2.  » 
  3. Fréttir
  4.  » ReykjavíkurAkademían verður sjálfseignarstofnun (sögubrot)

ReykjavíkurAkademían verður sjálfseignarstofnun (sögubrot)

by | 18. May, 2006 | Fréttir, Gárur

ReykjavíkurAkademían LOGO mediumReykjavíkurAkademían verður sjálfseignarstofnun

ReykjavíkurAkademían, félag sjálfstætt starfandi fræðimanna, sem haft hefur aðsetur í JL húsinu Hringbraut 121 undanfarin 8 ár, hefur nú stofnað sjálfseignarstofnun með sama nafni. Félagið, sem hér eftir heitir Félag ReykjavíkurAkademíunnar, verður félagslegur bakhjarl stofnunarinnar og kýs stjórn hennar, en ReykjavíkurAkademían ses. mun halda áfram því starfi sem félagið hefur sinnt fram að þessu. Þetta var ákveðið á aðalfundi ReykjavíkurAkademíunnar 31. mars síðastliðinn og hefur nú verið staðfest með formlegum hætti.

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú staðreynd að ReykjavíkurAkademían hefur á undanförnum árum þróast í átt til þess að vera sjálfstætt starfandi fræðimönnum það samfélag og sá vettvangur sem nauðsynlegur er til að efla samstarf þeirra á milli og stuðla að auknu fræðastarfi og fyrsta flokks fagmennsku í rannsóknum.

ReykjavíkurAkademían hefur í gegnum tíðina verið sá vettvangur sem helst getur laðað til sín unga fræðimenn, nýútskrifaða doktora og aðra sem kosið hafa að starfa utan hefðbundinna háskólastofnana. Það hefur verið ljóst lengi að þetta hlutverk ReykjavíkurAkademíunnar og sú fjáröflun sem hún beitir sér fyrir til að rækja það, krefst þess að ReykjavíkurAkademían styrki innviði sína. Því var ákveðið að fara sömu leið og tíðkast hefur meðal margra háskóla og menningarstofnana, að stofna sjálfseignarstofnun til að halda starfi félagsins áfram og þróa það lengra.

 

Í stjórn ReykjavíkurAkademíunnar ses. eru: Clarence E. Glad formaður, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir varaformaður, Jón Ólafsson gjaldkeri, Kári Bjarnason ritari og Kristinn Schram meðstjórnandi. Varamenn eru Halldóra Jónsdóttir og Unnur María Bergsveinsdóttir.

Í stjórn Félags ReykjavíkurAkademíunnar voru kjörin Þorleifur Hauksson bókmenntafræðingur formaður, og auk hans Guðrún Hallgrímsdóttir matvælafræðingur, Jón Þór Pétursson sagnfræðingur og Ingunn Ásdísardóttir til vara.

Markmið endurskipulagningarinnar

Þessi endurskipulagning á að efla starf ReykjavíkurAkademíunnar enn frekar og styrkja hana sem eina af helstu menningar-, mennta- og rannsóknastofnunum borgarinnar. Um 70 manns starfa nú við ReykjavíkurAkademíuna á mörgum sviðum vísinda og fræða, en nefna má sérstaklega sagnfræði, heimspeki, mannfræði, sálfræði og guðfræði.

ReykjavíkurAkademían hefur aðsetur að Hringbraut 121 eins og verið hefur og mun áfram standa fyrir  ráðstefnuröðum, fundahöldum, námskeiðum og útgáfu. Þá er gert ráð fyrir því að rannsóknaverkefnum í umsjón ReykjavíkurAkademíunnar fari fjölgandi á næstu mánuðum.

Um nokkurt skeið hefur staðið til að koma á fót rannsóknastofnunum um einstök viðfangsefni hug- og félagsvísinda, en lögð hafa verið drög að því að koma á fót Miðstöð innflytjendarannsókna til að byrja með og í framhaldi af henni verður unnið að því að fjármagna og skipuleggja verkefnin Vettvangur nýrrar menningarsögu, Atvinnu-og byggðasaga  og loks Ímyndir norðursins, en hópur innan Akademíunnar hefur starfað um árabil að því að byggja upp alþjóðlegt rannsóknarverkefni og samstarfsnet um það efni.

 

Nánari upplýsingar gefur Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri, sími 5628565, farsími 8448645 netfang vidar [hja] akademia.is.


Þetta sögubrot byggir á fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum vorið 2006.
Ef þú býrð yfir frekari upplýsingum um Atvikaröðin og aðra útgáfustarfsemi Akademíunnar, hafðu þá samband við skrifstofuna. Netfangið er ra [hjá] akademia.is