Ritröðin Íslensk menning er gefin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags og ReykjavíkurAkademíunnar. Ritstjórar eru Adolf Friðriksson og Jón Karl Helgason. Fimm bækur hafa komið út í þessari ritröð: Arfur og umbylting eftir Svein Yngva Egilsson (1999), Íslenska þjóðríkið eftir Guðmund Hálfdanarson (2001), Skáldið í skriftinni eftir Torfa H. Tulinius (2004), Frigg og Freyja: Kvenleg goðmögn í heiðnum sið eftir Ingunni Ásdísardóttur (2007) og Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness eftir Hauk Ingvarsson.

Hægt er að fá bækurnar sendar með pósti með því að leggja inn pöntun á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Bækurnar fást einnig hjá Bóksölu Stúdenta (Smelltu hér).

 


Íslensk menning V
ANDLITSDRÆTTIR SAMTÍÐARINNAR: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness
Haukur Ingvarsson

Enda þótt viðamiklar rannsóknir hafi verið gerðar á höfundarverki og ævi Halldórs Laxness hafa síðustu skáldsögur hans, Kristnihald undir Jökli og einkum Innansveitarkronika og Guðsgjafaþula  notið takmarkaðrar athygli meðal fræðimanna. Þessi rannsókn Hauks Ingvarssonar brýtur blað og varpar afar áhugaverðu og nýstárlegu ljósi á þróun skáldsins á sjöunda og áttunda áratugnum. Hann fjallar um viðtökusögu þessara skáldsagna og sýnir fram á hvernig hver ritdómari hefur búið sér til eigin mynd af Halldóri og dæmt nýja bók eftir hann út frá henni. Með greiningu sinni á sögunum varpar hann ljósi á þær nýju og merkilegu tilraunir með skáldsagnaformið sem þær fela í sér og stöðu þeirra meðal annarra verka Halldórs. Tengt þessu er endurmat á Skáldatíma, sem flestir hafa túlkað í ljósi uppgjörs skáldsins við sína pólitísku fortíð. Haukur færir sannfærandi rök fyrir því að Halldór geri þar einnig upp við sína póetísku fortíð, þ.e.a.s. félagslegt raunsæi hinna stóru epísku verka sinna, og leggi drög að þeirri fagurfræði sem búi að baki síðustu skáldsögum hans.

Haukur Ingvarsson er M.A. í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann hefur gefið út eina ljóðabók, verið stundakennari við Háskólann og gert fjölda útvarpsþátta um bókmenntir og menningarsögu.


Verð = 4.198 + sendingakostnaður


 

ismeandlit.png

 

 


Íslensk menning IV
FRIGG OG FREYJA: Kvenleg goðmögn í heiðnum sið
Ingunn Ásdísardóttir

Hugmyndir síðari tíma manna um hina fornu, norrænu guði hafa mótast mjög af umfjöllun Snorra Sturlusonar í Snorra-Eddu. Samkvæmt þeim er Frigg æðsta gyðjan, enda eiginkona Óðins og aðrar gyðjur undir hana settar.

Í hinni nýju bók Ingunnar sprettur fram algerlega ný mynd af hinum forna goðaheimi þar sem gyðjurnar, og þó einkum Freyja, skipa miklu stærri sess en bæði Snorri og margir síðari tíma fræðimenn hafa talið. Gagnstætt þeim sýnir Ingunn fram á að átrúnaður á hina fornu frjósemisgyðju Freyju muni hafa verið mikill og útbreiddur um öll Norðurlönd allt fram að kristnitöku. Í ritum sínum gerir Snorri hlut Friggjar mun meiri en Freyju vegna þess að Frigg hentaði betur þeim kristnu siðahugmyndum sem einkenndu samtíma hans en hin lausláta frjósemisgyðja. Í rannsókn Ingunnar riðlast þessi snyrtilega mynd Snorra og jafnframt hrekur Ingunn hugmyndir margra síðari tíma fræðimanna um að Frigg og Freyja hafi í raun verið sama gyðjan.

Rannsókn Ingunnar er þverfagleg. Hún skyggnist í orðsifjar og ævafornar helluristur, kannar fornminjafundi og örnefni á Norðurlöndum. Enn fremur rannsakar hún allar textaheimildir: grísk og latnesk rit, hinar fornháþýsku Merseburgsæringar að ógleymdum eddukvæðum, dróttkvæðum og goðfræðilegu efni í fornum sögum.
Þetta er stórmerkilegt grundvallarfræðirit og um leið aðgengileg og skemmtileg lesning handa öllum þeim sem áhuga hafa á fornum fræðum og heiðnum trúarhugmyndum.

Viltu sjá ritdóm um Frigg og Freyju? Smelltu hér.

Verð = 4.198 + sendingakostnaður


 

 

 


Íslensk menning III
SKÁLDIÐ Í SKRIFTINNI: Snorri Sturluson og Egils saga
Torfi H. Tulinius

Hvers vegna var Egils saga samin og hvaða þýðingu hafði hún í huga lesenda á 13. öld? Hver er Egill og hvernig endurspeglar lýsingin á honum atburði í lífi Snorra Sturlusonar, líklegs höfundar sögunnar? Hér glímir Torfi H. Tulinius við þessar og fleiri hliðstæðar spurningar og leggur fram óvænta lausn á þeirri ráðgátu sem Egils saga óneitanlega er. Það gerir hann með hugvitssamlegri rannsókn á byggingu sögunnar og innihaldi, sem helgast af nýjum skilningi á eðli íslenskrar menningar á Sturlungaöld og tengslum hennar við evrópska miðaldamenningu. Torfi sýnir fram á að Egils saga sé gegnsýrð kaþólskum viðhorfum og þar að auki mun persónulegra verk en áður hefur verið talið. Snorri hafi með sögunni viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við Sighvat bróður sinn og Sturlu son hans. Hann hafi séð hlutskipti sitt og Egils í ljósi sögu Gamla testamentisins af Davíð konungi. Allir þrír hafi misst frumburð sinni og túlkað það sem refsingu fyrir að hafa lagt á ráð um dauða sinna nánustu keppinauta. Er Egla e.t.v. pólitískt uppgjör Snorra Sturlusonar?

Torfi H. Tulinius dregur fram fjölmargar hliðstæður á milli lýsingarinnar á Agli Skallagrímssyni og ævi Snorra og setur fram ögrandi tilgátur um þær ástæður sem Snorri kann að hafa haft fyrir ritun verksins.

Torfi er prófesor í frönsku og miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og hefur sent frá sér fjölmargar ritsmíðar um fornsögurnar. Þessi fyrsta bók hans um efnið á íslensku hefur ekki aðeins þýðingu fyrir skilning okkar á Egils sögu heldur Íslendingasögum sem bókmenntagrein, enda er hér á ferðinni læsileg og spennandi fræðibók sem bregður óvæntri birtu á Eglu sem eins af stórvirkjum íslenskrar bókmenntasögu.

Skáldið í skriftinni er þriðja bókin í ritröðinni Íslensk menning sem Reykjavíkur-Akademían og Hið íslenska bókmenntafélag standa að. Hinar fyrri eru Arfur og umbylting eftir Svein Yngva Egilsson og Íslenska þjóðríkið – uppruni og endimörk eftir Guðmund Hálfdanarson. Ritstjórar eru Jón Karl Helgason og Adolf Friðriksson.
Kápuhönnun annaðist Snæbjörn Arngrímsson.

Verð = 3.670 + sendingakostnaður


 


 


Íslensk menning II
ÍSLENSKA ÞJÓÐRÍKIÐ: Uppruni og endimörk
Guðmundur Hálfdanarson

Ritið er afrakstur af viðamiklum rannsóknum höfundar á íslenskri þjóðernisstefnu og áhrifum hennar á stjórnmálaþróun hér á landi á nítjándu og tuttugustu öld. Í bókinni er fjallað um helstu forsendur sjálfstæðisbaráttunnar, ólík sjónarmið sem tókust á við mótun íslensks nútímaríkis og þær breytingar sem orðið hafa á þjóðernisvitund Íslendinga á undanförnum áratugum. Guðmundur Hálfdanarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri róttæku endurskoðun sem nú fer fram á sögu sjálfstæðisbaráttunnar og eðli íslensks þjóðernis. Bók hans er mikilvægt framlag til pólitískrar umræðu á Íslandi á tímum örra breytinga í alþjóðastjórnmálum og vaxandi hnattvæðingar.

Verð = 3.885 + sendingakostnaður

 

 

 


Íslensk menning I
ARFUR OG UMBYLTING: Rannsókn á íslenskri rómantík
Sveinn Yngvi Egilsson

Nítjánda öldin er tímabil rómantísku skáldanna í íslenskum bókmenntum, fagurkera á borð við Jónas Hallgrímsson, Grím Thomsen, Benedikt Gröndal og Gísla Brynjúlfssonar. En þeir voru annað og meira en ljóðrænir sveimhugar og náttúrudýrkendur. Þessi skáld vildu reisa þjóðlega menningu og skáldskap á grunni fornaldarinnar en voru jafnframt í hringiðu evrópskrar sögu og hugmynda. Þau sóttu sér yrkisefni í fornnorrænar goðsagnir, miðaldasögur og íslenska og erlenda frelsisbaráttu. Í ljóðum sínum lofsungu þau sögulega áhrifavalda eins og Napóleon Bónaparte, Lajos Kossuth og Jón Sigurðsson.
Í Arfi og umbyltingu fjallar Sveinn Yngvi Egilsson um úrvinnslu rómantísku skáldanna á bókmenntaarfi miðalda og tengsl þeirra við erlenda skáldjöfra og samtímaviðburði. Bókin veitir ferskum straumum inn í rannsóknir á íslenskri rómantík og fær lesandann til að hugsa á nýjan hátt um ljóðagerð nítjándu aldar.

Verð = 3.564 + sendingakostnaður


 

 


FaLang translation system by Faboba